153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:28]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ívilnandi ákvæði, segir hæstv. dómsmálaráðherra. Sannarlega er eitt þeirra ákvæða sem eru ívilnandi í þessu frumvarpi á sviði hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra. Hins vegar fjallar þetta frumvarp líka um að svipta fólk þjónustu, sem er að mínu viti á forræði hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það er fréttaefni ef hæstv. dómsmálaráðherra telur það vera ívilnandi ákvæði. Þá vil ég bara fullvissa hæstv. dómsmálaráðherra um það að ég mun hvorki fyrr né síðar forðast efnislega umræðu um þetta frumvarp og mun það ekki fara fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra þegar líður á þessa umræðu. Ég er fyllilega reiðubúin í það og mun gera það, orð fyrir orð. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði áðan að það væri fullur einhugur um þetta mál í ríkisstjórninni. Það er nákvæmlega vegna svona ummæla, athugasemda, sem við þurfum að fá hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra inn í þennan þingsal vegna þess að það er ekkert sem bendir til þess að það sé fullur einhugur og væri gott að heyra hvað hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur um þennan fulla einhug að segja. Það er ekki hægt að halda þessari umræðu áfram fyrr en hann er mættur hingað í salinn.