153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er voðalega þreytt að ráðherra sé að dylgja um að það sé ekki efnisleg umræða í gangi. Umræðan er rétt að byrja og ástæðan fyrir því að við erum að kalla eftir félags- og vinnumarkaðsráðherra er svo við getum átt í þessari efnislegu umræðu. Þess vegna kölluðum við eftir viðveru hans í byrjun og vorum búin að útskýra mjög vel af hverju það er þörf á veru félags- og vinnumarkaðsráðherra hér. Ég er hér með dágóðan fjölda blaðsíðna einmitt með punktum upp úr greinargerðinni sem ég hef hlakkað til að ræða við dómsmálaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra. Umræðan er ekki byrjuð og samt er ráðherra byrjaður að dylgja um það að við séum ekki í efnislegri umræðu. Andskotinn hafi það, forseti.(Forseti hringir.)

(Forseti (AIJ ): Ég held að forseti …)

Það er ekki viðeigandi að tala svona þegar viðkomandi er ráðherra. (Forseti hringir.)

(Forseti (AIJ): Ég held að forseti verði að biðja …)

Þess vegna nota ég þetta orðalag af því að það er óviðeigandi af ráðherra að dylgja svona um okkur þingmenn þegar umræðan er ekki einu sinni byrjuð.