153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú er það ekki svo að við tökum það upp hjá sjálfum okkur hvaða ríki eru ekki örugg. Þetta eru tilmæli frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem er alveg nákvæmlega sama hvort ríkið sé kommúnistaríki eða hægriöfgaríki. Það er verið að tala um vargöld sem hefur geisað þar lengi og það eru tæplega sjö milljónir manna frá Venesúela á flótta í heiminum í dag. Það eru jafn margir og hafa flúið Úkraínu. Það er bara óvart staðan. Þetta eru ekki efnahagslegir flóttamenn. Þetta er vegna vargaldar. Það er vegna þess að þar ríkir óstjórn. Það er ekki öruggt ríki. Það er bara skilgreiningin á ástandinu þar. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér fyrir sér að takmarka og loka landamærunum þegar ákveðnum fjölda er náð. Erum við þá að uppfylla (Forseti hringir.) ákvæði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem við erum aðilar að?