153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:05]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar sitt. Jú, ég er algjörlega sammála því, við eigum að vera með svipaða löggjöf og í Noregi og Danmörku. Við eigum að uppfylla okkar alþjóðlegu skuldbindingar í samræmi við og með svipuðum hætti og þeir gera, sérstaklega Noregur því að Noregur er líkara okkur sem samfélag, sérstaklega Norður-Noregur og með vesturströndinni. Það er það sem við eigum að gera. Við eigum líka að reyna að gera þetta á sem skilvirkastan hátt. Ég tók eftir því í morgun þegar við fórum í Bæjarhraunið að þeir eru með fjórar starfsstöðvar, á Dalvegi, í Bæjarhrauni 18, Bæjarhrauni 14 og svo líka í Domus Medica. Þeir voru alveg sammála því, starfsmennirnir, að hægt væri að auka skilvirkni í móttökunni. Þeir vilja auka afkastagetuna, fjölga starfsfólki og fjölga viðtalsstofum til að auka afkastagetu og ég er því algerlega sammála. Þess vegna tel ég að það sé svo auðvelt fyrir okkur að ná sátt um þetta mál í þinginu. Ég held að séu allir sammála því að við eigum að horfa til hinna Norðurlandanna, sérstaklega Noregs og gera eins og þeir. Það er mín skoðun. Ég held að allir séu sammála (Forseti hringir.) en svo endar þetta alltaf í einhverju allt, allt öðru, umræðu um umræðuna.