153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Hér er lagt fram í fimmta sinn frumvarp um breytingar á útlendingalögum, frumvarp sem er ætlað að, með leyfi forseta, „tryggja að þeir sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd fái réttláta og vandaða málsmeðferð“ og einnig að tryggja „að þeir sem raunverulega eiga rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu mála sinna“. Þetta hljóma eins og góðar og gildar ástæður til að gera breytingar á núverandi lögum en vandamálið er að þetta frumvarp mætir alls ekki þessum markmiðum. Þvert á móti er verið að gera hlutina óskilvirkari og ómannúðlegri. Frumvarpið mun heldur ekki orsaka það að færri umsækjendur komi hingað og mun leiða til þess að einstaklingum sem þurfa að bíða hér árum saman eftir niðurstöðu mun fjölga.

Til þess að tryggja framgang þessa máls hafa dómsmálaráðherra og vinir hans á Morgunblaðinu farið í mikla fjölmiðlaherferð þar sem sannleikurinn er sjaldnast látinn ráða för. Það er látið að því liggja að þeir sem hingað koma og sækja um hæli séu meðlimir í skipulögðum glæpasamtökum. Sannleikurinn er hins vegar sá að þar sem þetta fólk er mjög berskjaldað eru líkurnar á því að það verði fórnarlömb skipulagðrar glæpastarfsemi hærri. Það er látið að því liggja að mikil fjölgun sé á fölsuðum eða keyptum vegabréfum en sannleikurinn er sá að slíkum málum hefur stórlega fækkað á undanförnum árum samkvæmt tölum lögreglunnar.

Ráðherra talaði sérstaklega um að fólk frá Sýrlandi kæmi með nýleg vegabréf frá Venesúela. Hann áttar sig kannski ekki á því að í Venesúela býr tæp milljón manns frá Sýrlandi sem flutti þangað á síðustu öld. Það er látið að því liggja að hér sé sprenging í komu hælisleitenda en dómsmálaráðherra gleymir að taka fram að hans eigin ríkisstjórn, með hans samþykki, ákvað að bjóða stærstum hluta þessa hóps, um 60%, til landsins. Þar er ég að tala um flóttamenn frá Úkraínu. Innviðir hér á landi eru komnir að þolmörkum af því að við buðum yfir 2.000 manns frá Úkraínu að koma hingað. Ef sá hópur væri ekki til staðar væru aðstæður allt aðrar í kerfinu.

Það er líka mikilvægt að átta sig á því að frá árinu 2019 — ég tek árið 2019 af því að það var áður en Covid breytti svolítið því hvernig fólk gat farið um heiminn — eru tæpar 80 milljónir manna á flótta, og síðan þá er talið, samkvæmt nýjustu tölum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, að um 100 milljónir manna séu á flótta. Og já, stríðið í Úkraínu ber ábyrgð á hluta af þessari tölu en aðeins broti því að þessi aukning, úr 80 upp í 100 milljónir eða 25% aukning — 7 milljónir þeirra eru vegna stríðsins í Úkraínu. Ef við undanskiljum Úkraínubúa er samt 17% fjölgun fólks á flótta í heiminum og næststærsti hluti þess á alþjóðavísu eru Palestínumenn, sem eru 5,5 milljónir, og Venesúelabúar, sem eru 4,4 milljónir. Þess skal reyndar getið að margir þessara Palestínumanna hafa verið flóttamenn í tugi ára og eru í flóttamannabúðum í Miðausturlöndum. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að langstærsti hópur hælisleitenda sem koma hingað til lands, að Úkraínumönnum frátöldum, er frá Venesúela, eða um 20% af þeim sem hafa komið hingað það sem af er ári. Ástandið þar í landi er svo sannarlega slæmt og þó svo að sumir hafi reynt að teikna það upp sem efnahagslegan flótta eða flótta frá kommúnisma þá er staðreyndin sú að það land er á lista Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir lönd þar sem óöld og ofsóknir geisa og því er það viðurkennt sem land sem flóttamenn koma frá.

Við getum spáð í það af hverju fleiri koma til Íslands frá Venesúela en til annarra landa. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir benti á t.d. muninn á því hvert Erítreumenn fóru. Þeir komu ekki hingað til Íslands, það hafa komið tveir á undanförnum þremur árum frá Erítreu til Íslands en þó eitthvað færri annars. Við erum líka alltaf að bera okkur saman við höfðatölu, að við séum að taka á móti fleira fólki miðað við höfðatölu. Við vinnum allan samanburð á höfðatölu. Hættum að nota hann sem einhverja afsökun.

Það er kannski skrýtnast við þessa herferð sem ráðherra hefur verið í undanfarnar vikur að ekkert af því sem lagt er til í þessu frumvarpi snertir nokkuð á þeim hlutum sem hafa verið nefndir af ráðherra. Þar er hins vegar slatti af ákvæðum sem maður veit ekki alveg hvers vegna eru þar. Ef markmiðið væri að tryggja hælisleitendum vernd frá skipulögðum glæpahópum værum við að stytta málsmeðferðartíma en ekki flækja kerfið enn meira og gera það óskilvirkara eins og þetta frumvarp mun gera. Ef markmiðið væri að tryggja betri þjónustu við hælisleitendur þá myndum við styrkja innviðina sem taka á móti þeim í stað þess að eyða hundruðum milljóna í það að senda fólk heim. Við myndum líka gefa fólki atvinnuleyfi strax svo það gæti séð fyrir sér sjálft sem fyrst í stað þess að þurfa að reiða sig á stuðning ríkisins. Ef markmiðið væri að fækka hælisleitendum frá Venesúela væri ráðherra löngu búinn að leggja það til við Evrópusambandið að 8. gr. Schengen-samkomulagsins — sem tekur einmitt á því hvað eigi að gera þegar lönd verða vör við stóraukinn fjölda hælisumsókna fólks frá löndum þar sem Schengen er með undanþágur frá áritun. Stóra vandamálið er að það er ekki verið að reyna að gera kerfið skilvirkara og mannúðlegra þó svo að það virðist vera hægt að telja hv. þingmönnum stjórnarflokkanna trú um það.

Ótrúlegt er hvað hægt er að kasta ryki í augun á fólki með því að endurtaka alltaf sömu ósannindin: Ef einn hælisleitandi fremur glæp þá hljóta þeir allir að vera glæpamenn. Ef einn hælisleitandi kemur með falsað vegabréf þá hljóta allir að vera falsarar. Ef einn hælisleitandi er fórnarlamb mansals þá hljóta þeir allir að vera það. Já, og ef einn hælisleitandi er í gervihjónabandi þá hljóta þeir allir að vera það. Það er nefnilega svona sem allir hælisleitendur eru meðhöndlaðir. Og ekki bara hælisleitendur, heldur allir umsækjendur um dvalar- eða atvinnuleyfi hér á landi. Það er alltaf reiknað með því að þú sért að reyna að svindla á kerfinu. Það að verða ástfanginn af útlendingi er meðhöndlað eins og landráð innan kerfisins því að þau hljóti að vera að plata af því að enginn er jú nógu vitlaus til að verða ástfanginn af Íslendingi.

Við erum þjóð sem er að stækka og breytast. Um 20% þjóðarinnar á rætur sínar að rekja annað en hingað, á þetta sker. Í gegnum EES-samninginn höfum við opnað landið okkar fyrir fólki frá Evrópu en þegar kemur að því að leyfa fólki annars staðar úr heiminum að setjast hér að þá höfum við ekki verið eins opin fyrir því að hleypa því inn í landið. En ef við ætlum okkur að vera land tækifæranna þar sem hagvöxtur rís ár eftir ár, þar sem nýsköpun fær að blómstra og þar sem við tökum á móti milljónum ferðamanna ár hvert, þá ættum að taka opnum örmum þeim sem hingað vilja koma, óháð því hvaðan þau koma. Bara í tæknigeiranum munu 8.000 manns koma hingað á næstu fimm árum og ekki koma þau öll frá Evrópu eða Bandaríkjunum nema kannski ef Trump verður kosinn aftur.

Það er greinilegt að tillögur þær sem Útlendingastofnun og dómsmálaráðuneytið leggja fram nú í fimmta skipti ná engan veginn þeim markmiðum sem talin eru upp í frumvarpinu. Þar er hins vegar að finna fjölmörg atriði þar sem dómstólar og kærunefnd útlendingamála hafa slegið á putta Útlendingastofnunar sökum þess að þær aðgerðir áttu sér ekki lagastoð eða voru ekki nógu mannúðlegar. Við Íslendingar þurfum að taka á okkur auknar byrðar vegna aukinna stríðsátaka og áhrifa loftslagsbreytinga. Bent hefur verið á að þær tölur um fjölda fólks á flótta sem ég nefndi hér að ofan gætu jafnvel tvöfaldast til þrefaldast á komandi áratug.

Það er einskær von mín að innan hv. allsherjar- og menntamálanefndar fái þetta frumvarp gagngera endurskoðun, að nefndarmenn taki sig saman um að skoða hvert og eitt ákvæði gaumgæfilega og tryggja að horft sé til mannúðar og skilvirkni en ekki til þess hvort slegið hafi verið á putta. Það er fátt mikilvægara á þessu þingi en að breið sátt náist um þessi mál. Sú sátt næst eingöngu ef aðilar beggja megin borðsins eru tilbúnir til þess að hlusta af alvöru á rök hvors annars og umsagnaraðila og finna leiðir sem báðir eru sáttir um.

Við þingmenn sem hér sitjum verðum að læra að sýna þann þroska og það þor að vinna saman að mikilvægum málum eins og þessu, jafnvel þótt það þýði að það sem ráðuneytið lagði upp með verði ekki lengur það sem kemur út úr nefnd. Þar gengur ekki að stýrast eingöngu af tillögum frá ráðuneytinu heldur þurfum við, löggjafinn, að sýna okkar vilja, sameiginlegan vilja, þar sem sátt hefur náðst og raunverulega tryggt að mannúð, skilvirkni og sanngjörn málsmeðferð séu höfð að leiðarljósi. Við skulum muna það að einn daginn gætum við sjálf staðið frammi fyrir því að sækja um hæli ef Ísland yrði óbyggilegt. Þá skulum við vona að það kerfi sem tekur á móti okkur sé mannúðlegt og skilvirkt.