153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Já, þetta er metár og við eigum eflaust eftir að sjá fleiri metár í framtíðinni, m.a. vegna loftslagsbreytinga, aukinna stríðsátaka og ýmissa annarra hluta. Allt eru þetta hlutir sem við verðum að finna út úr hvernig við fáumst við. Ég sé ekki að neitt í þessu frumvarpi hjálpi okkur að takast á við það hvaða fjöldi kemur hingað inn. Þvert á móti er það bara þannig að við þurfum að takast á við þá sem hingað koma, rétt eins og við gerum þegar öryrkjum fjölgar eða þegar hópar eldra fólks stækka eftir því sem árgangarnir eru stærri og fólk lifir lengur. Við þurfum að takast á við þetta sem ríki og það er okkar að gera það á mannúðlegan hátt, gera það á skilvirkan hátt og vera ekki bara „stórasta“ land í heimi (Forseti hringir.) heldur líka land sem tekur virkilega á hlutunum af mannúð — mannúðlegasta land í heimi. Það þýðir ekki að ég vilji opna öll landamæri. Það þýðir að ég vil að við tökum á móti fólki af mannúð.