153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:06]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir ræðuna og fyrir að taka þátt í umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég er að mestu sammála því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns. Nú fórum við nokkur saman í ferð um Norðurlöndin, til Noregs og Danmerkur, og sáum hvernig hlutirnir eru gerðir þar. Það var ýmislegt sem kom á óvart. Það sem kom mér persónulega mest á óvart var að sá munur sem sagður er vera á kerfunum hérna er í rauninni ekki til staðar. Í raun er ekkert svo mikill munur á ákvarðanatöku í málum. Hvað varðar t.d. fólk sem kemur frá Venesúela er hæstv. ráðherra tíðrætt um að við séum að veita viðbótarvernd á meðan önnur ríki séu að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Nú vill svo til að mörg ríki gera ekki einu sinni greinarmun á þessum tveimur tegundum leyfa. Ég tala meira um það í ræðu minni síðar í þessari umræðu. En mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað kom honum helst á óvart í þessari heimsókn okkar?