153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:09]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það skiptir auðvitað miklu máli hvernig við tölum. Þegar sagt er að verið sé að misnota kerfið þá þurfa að fylgja því einhverjar skýringar vegna þess að þessi alhæfing út í loftið gefur einhvern veginn þau hughrif að það sé ótrúlegur fjöldi fólks að koma hingað á fölskum, sviknum og hæpnum forsendum. Þegar menn halda því fram að verið sé að misnota kerfið þá getur það auðvitað átt við í einhverjum einstökum tilvikum. Eru þau tilvik það mörg að þau réttlæti að við herðum skrúfuna á þeim sem eru ekki að gera neitt annað en að leita sér hjálpar eftir réttum leiðum og með réttum aðferðum? Ég segi nei við því og við verðum að passa okkur hvernig við tölum og verðum að rukka fólk sem talar með þessum hætti: Það er verið að misnota, þetta eru glæpamenn, þetta eru hryðjuverkamenn. Nú er ég ekki að vísa í einhverja ákveðna stjórnmálamenn. Við verðum að krefja þetta fólk um skýringar á því hvað nákvæmlega er verið að tala um.