153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:12]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og að kasta upp þessum bolta. Ég fór aðeins yfir þetta í minni ræðu, ég hef áhyggjur af því að eins og fyrirætlunin er hérna núna þá geri hún það að verkum að einhverjir hópar falli mögulega á milli skips og bryggju og eigi ekki rétt á neinni aðstoð án þess að hafa nokkuð sér til sakar unnið og hafa ekki gert neitt til þess að koma í veg fyrir að vera fluttir úr landi heldur sé stíflan eða girðingin í raun og veru einhvers staðar annars staðar. Ég nefndi það líka í ræðu minni að fólk sem er í þessari stöðu hefur þurft að dvelja býsna lengi í búðum í Danmörku, jafnvel mánuðum og árum saman. Mér finnst svolítið hryggilegt til þess að hugsa ef framkvæmdin hér, ef þetta allt saman verður að veruleika, verður þá mögulega þannig að Danir geyma þó fólkið sitt í brottvísunarbúðum en hjá okkur eru einhverjir hópar á götunni. Ég held að ég geti ekki svarað þessu öðruvísi.