153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:25]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast nú ekki alveg við að hafa sagt það sem ég var sagður hafa sagt en ég skil hins vegar alveg punktinn sem hér er verið að nefna. Það sem ég var kannski að reyna að segja í ræðunni minni er að hælisleitendur og flóttafólk raðar sér ekki með skipulegum hlutfallslegum hætti niður á lönd eftir því hver íbúatala í viðkomandi landi er. Það eru bara alls konar tilviljanir og breytur í þessu. Ég held að hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir hafi nefnt þetta t.d. ágætlega hvað varðar fólkið frá Venesúela, að þótt eitthvað heiti viðbótarvernd á Íslandi þá sé það ekkert óáþekkt því sem tíðkast til að mynda á Norðurlöndunum sums staðar þótt það heiti annað. Hver skýringin er á því að Venesúelabúar koma hingað meira núna heldur en til annarra landa — ja, við getum spurt: Af hverju eru önnur lönd að taka á móti hlutfallslega miklu fleirum frá einhverjum öðrum löndum sem við fáum t.d. fáa frá? Það eru bara alls konar breytur í þessu sem væri mjög gaman að fá skýringar á. En ég held ekki, og (Forseti hringir.) ætla að leyfa mér að halda því fram, að skýringin á því að hingað koma margir (Forseti hringir.) frá Venesúela sé sú að menn séu endalaust að gúgla (Forseti hringir.) sæluríkið Ísland þegar kemur að móttöku flóttafólks og fólks sem er að sækja um vernd. (Forseti hringir.) Ég held að þessar 8.000 kr. á mánuði séu ekki það freistandi. (DME: En veðrið?)