153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:30]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek heils hugar undir þessa beiðni. Við höfum verið í fundarstjórnarumræðum hér í dag og höfum verið að benda á þörfina á að fá félags- og vinnumarkaðsráðherra inn í þingsal til að ræða þetta mikilvæga mál. Þetta er risastórt mál sem er augljóslega mjög umdeilt. Við erum búin að heyra félags- og vinnumarkaðsráðherra gagnrýna þetta mál opinberlega en þegar kemur að því að ræða við hann í þingsal þá mætir hann ekki. Það er hérna sem umræðan á að fara fram, ekki í fjölmiðlum. Umræðan á að fara fram hérna. Hér á lýðræðisleg umræða sér stað. Að hæstv. ráðherra eigi ekki heimangengt — ég bara skil ekki þá afsökun. Það er ofboðslega mikilvægt fyrir okkur þingmenn að tala við hæstv. vinnumarkaðsráðherra um hluti í þessu frumvarpi sem eiga beint við hans málaflokk. Ef hann getur ekki séð sér fært að mæta hingað þurfum við augljóslega að fresta þessum fundi þar til hann á heimangengt.