153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Fyrir utan ákvæðið sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir hefur bent á að varði og breyti dálítið tilhögun þess málaflokks sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur umráð yfir erum við líka með ákvæði í þessum lögum, þessu safnlagafrumvarpi, þessum bandormi svokallaða, sem hefur einmitt áhrif á lög sem félags- og vinnumarkaðsráðherra ber ábyrgð á. Það er þessi undanþága frá kröfu um tímabundið atvinnuleyfi, þ.e. útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla við landið og nokkur önnur ákvæði þar.

Þetta eru ákvæði sem skipta okkur máli. Við vorum að reyna að afgreiða þetta í gegnum þingið á síðasta þingi en þá hafnaði ríkisstjórnin því að breyta þeim lögum sem voru þá á vettvangi félags- og vinnumarkaðsráðherra. En nú eigum við einhvern veginn að endurtaka þann leik undir lögum dómsmálaráðherra. Ég átta mig ekki á því. Við þurfum að spyrja félags- og vinnumarkaðsráðherra aðeins um þetta mál.