153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:35]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég fer ekki varhluta af því sem hér er sagt og í framhaldi af ræðu hv. þingmanns sem hér lauk máli sínu og annars þar á undan, hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar, þá held ég að það beri að halda því til haga að hér er nú fulltrúi Vinstri grænna í allsherjar- og menntamálanefnd á mælendaskrá þannig að það er ekki eins og við séum algjörlega fjarri í þessari umræðu og hér hef ég bara setið og fylgst með þessum umræðum í allan dag, sem er ljómandi gott.

Varðandi þetta ákall, sem ég skil alveg, um að fá hæstv. ráðherra VG, félags- og vinnumarkaðsráðherra, inn til inn í salinn: Ég er búinn að greina frá því hér að hann á því miður ekki heimangengt, en eðli málsins samkvæmt, eins og bent hefur verið á, er þetta auðvitað skörun við hans málefnasvið og ég geri fastlega ráð fyrir því að það verði bara farið afar vel yfir það í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar og stórefast um annað en að hæstv. ráðherra mæti þá bara til nefndarinnar sé kallað eftir því sérstaklega.