153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Auðvitað vekur það athygli og eftirtekt í jafn viðamiklu og umdeildu máli og þessu að fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi tekið þátt í umræðunni til þessa og verið mjög virkir í andsvörum, en ekki einn einasti Framsóknarmaður eða þingmaður Vinstri grænna hafi látið sjá sig í umræðunni. Þótt þeir séu á mælendaskrá síðar í kvöld þá er þetta hrópandi ósamræmi á milli flokkanna, að flokkarnir tveir sem engan fyrirvara gerðu við afgreiðslu málsins út úr þingflokkum séu hér að skrópa. Hér vildi hæstv. dómsmálaráðherra fullvissa okkur um að það hefði verið mikið samráð milli ráðuneyta hans og hæstv. félagsmálaráðherra, fullur einhugur milli ráðherra og í ríkisstjórn. Fyrirgefið, forseti, en við þurfum að heyra það frá félagsmálaráðherra. Það er ósiður að tala fyrir hönd annarra. Þetta er málstofan og nú er tíminn fyrir ráðherrann að mæta, ekki einhvern tíma á nefndafundum sem eru lokaðir almenningi, ekki í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem ráðherrann er vel að merkja ekki á dagskrá í þessari viku. (Forseti hringir.) Hann ætlar að hunsa okkur alla vikuna, mætir ekki einu sinni í dag. Það eina sem við heyrum úr forsetastól er að ráðherrann eigi ekki heimangengt, hvað þýðir það eiginlega?