153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:45]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vildi í þessu samhengi nefna, af því við erum komin með umræðuna hingað, að það er til fyrirmyndar hvað þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hæstv. dómsmálaráðherra hafa tekið mikinn þátt í umræðunni. Það hefur dýpkað hana og kannski fært okkur í einhverja átt með þetta mál. Ég sakna þess samt svolítið að hafa ekki heyrt meira um fyrirvara þingflokks Sjálfstæðisflokksins við frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sagði í útvarpsviðtali að það gengi ekki hnífurinn á milli hæstv. dómsmálaráðherrans og þingflokksins og svo samþykkir þingflokkurinn málið út með fyrirvara. Ég man að á síðasta þingvetri þá gerði þingflokkur VG fyrirvara við þetta sama mál sem er nú endurflutt tiltölulega óbreytt — það eru ekki brjálæðislega miklar breytingar á því milli ára. Í þessu ljósi væri gott ef fleiri þingmenn gerðu grein fyrir þessum hlutum, það myndi skýra ansi margt fyrir okkur hinum sem eigum ekki aðild að þessu ríkisstjórnarsamstarfi.