153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir orð hv. þingmanns sem féllu hér áðan um að nauðsynlegt sé að fresta umræðunni núna til þess að við fáum hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra í salinn þegar þetta mál er til umræðu þar sem hluti af frumvarpinu heyrir undir hans málefnasvið. Það er nauðsynlegt. Það er rétt gagnvart lýðræðinu og rétt gagnvart Alþingi að við fáum afstöðu hans til þeirra ákvæða sem heyra undir hann. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við frestum þessari umræðu, enda er ekki slík ofgnótt af stjórnarmálum að teppa dagskrá Alþingis að það sé ekki hægðarleikur að taka þetta mál upp til áframhaldandi 1. umr. hér þegar hæstv. ráðherra hefur komið í húsið. Ég held að við hljótum að geta gert þá kröfu. Fundur skal standa til miðnættis. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra ku vera á leiðinni til útlanda á morgun þannig að eigum við ekki að gefa honum færi á að koma hingað?