153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:35]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skil það þannig að umsækjandi um alþjóðlega vernd sé umsækjandi um alþjóðlega vernd þangað til hann hefur fengið endanlega niðurstöðu og þessi neikvæða skilgreining fyrir mér er ekki aukaatriði. En það var reyndar ekki — það er bara svo lítill tími sem maður hefur. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, og þetta er mikilvæg spurning tel ég í ljósi ræðu hans og líka í andsvari hér áðan við hv. þm. Diljá Ósk Einarsdóttir, er um 6. gr. Þegar réttindasviptingin á sér stað innan 30 daga erum við komin í þvingaða brottför. Það er komin endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi, útlendingurinn ekki umsækjandi lengur um alþjóðlega vernd og eftir 30 dagar er hann sviptur úrræði. Þá getur hann farið sjálfviljugur eða ekki sjálfviljugur. Það er þá þvinguð brottför með þvingunarúrræði. Ég skil þvingun þannig að það sé jafnvel frelsissvipting. Hvernig sér hann fyrir sér þvingaða brottför hjá útlendingi sem er búinn að fá endanlega synjun? Hvernig sér hann fyrir sér framkvæmd hennar? Ég veit að í Danmörku (Forseti hringir.) er 1/10 af umsóknum þvinguð brottför, sem hafa fengið neitun. En hvernig sér hann það fyrir sér? Mér fannst ræðan hans vera þannig (Forseti hringir.) að ég gat verið sammála nánast öllu í henni, allt mjög fínt; réttlát málsmeðferð, gera þetta vel (Forseti hringir.) og vera góð við fólkið sem sækir hérna um. En þetta er þvingunarúrræði. Hvernig sér hann það fyrir sér? (Forseti hringir.) Sér hann fyrir sér að það sé jafnvel ekki þvingun? Hvernig sér hann framkvæmdina fyrir sér?

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á að hér er tími af afar skornum skammti og minnir hv. þingmann á að 6. þm. Reykv. n. heitir Diljá Mist Einarsdóttir.)(EÁ: Já, fyrirgefðu.)