153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þarna vitnaði ég í danska forsætisráðherrann, kratann Mette Frederiksen, sem sagði að Danmörk mætti ekki vera söluvara glæpagengja. Það sama ætti að gilda um Ísland. Ísland má ekki vera söluvara fyrir þá sem bjóða fólki oft og tíðum upp á óraunhæfar væntingar og hafa af því aleiguna fyrir vikið og stundum jafnvel miklu meira. Steypa því í skuld og ætlast til að það vinni svo fyrir viðkomandi þegar komið er til landsins. Einmitt þess vegna þurfum við að nálgast þetta á svipaðan hátt og Danir með því að bjóða upp á eða hvetja til þess að fólk fari frekar öruggu leiðina, öruggari leiðina, og sæki um utan landsins. Þá getum við eins og Danir og önnur Evrópulönd boðið fólki þaðan að koma með öruggum hætti. Við megum ekki láta þessa glæpamenn nota Ísland sem söluvöru, selja fólki væntingar, (Forseti hringir.) setja það jafnvel í lífshættu eða hneppa það í þrældóm út á einhverjar væntingar sem íslensk stjórnvöld búa til.