153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég að hv. þingmaður getur ekki komið aftur upp í andsvar en ég hefði viljað spyrja hv. þingmann hvort hann telji að vel hafi tekist til árið 2016. Ég er nefnilega ekki þeirrar skoðunar. Nú var hvorugur okkar á þingi þá. Ég held að það væri mikið til þess vinnandi að hv. allsherjar- og menntamálanefnd næði að laga þetta frumvarp þannig að það hefði áhrif til þess að fjarlægja hin séríslensku ákvæði, draga þar með úr þeim seglum sem ég og við í Miðflokknum teljum kerfið bjóða upp á í dag. En ég er hóflega bjartsýnn. Við sjáum bara með hvaða hætti við í þessum sal nálgumst málin. Öðrum megin er sagt: Það eru engar takmarkanir á því hvað við ráðum við. Hinum megin horfum við á sveitarfélögin við það að kikna og kveinka sér mjög undan þeim fjölda sem til þeirra koma. Ég held að staðan sé enn þá sú að sveitarfélögin (Forseti hringir.) hafi ekki undirritað uppfærðan samning um samræmda móttöku. Bæjarstjórinn í Hafnarfjarðarbæ nefndi til að mynda að fjöldi starfsmanna, sem áður hafði verið áætlaður tveir, hafi endað í 16. Ég er því hræddur um að það verði snúið verkefni.