153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Þessi vandamál eru löngu til komin, held ég, þau vandamál sem sveitarfélögin standa frammi fyrir núna. Ég held að við séum hreinlega ekki fær um það, hvorki ríkissjóður né sveitarfélög, að bregðast við þeim fjölda sem kemur til landsins með uppbyggingu innviða til að bregðast við. Við sjáum nú bara daginn út og daginn inn fregnir af myglu í skólum í Reykjavík og þar fram eftir götunum. Við erum með uppsafnaða innviðaskuld úti um allt í kerfinu. Það er allt sprungið. Það er alveg sama hvort það eru grunnskólar, samgöngukerfið, flutningskerfi raforku eða hvað það kann að vera, þetta hefur allt verið látið reka á reiðanum, sem undirstrikar kannski hversu vondur eigandi ríkissjóður getur verið á svona innviðum og sveitarfélög sömuleiðis. En varðandi það að verið sé að skáka í því skjóli að þessi innviðaskuld sé til staðar þá held ég samt að það sé raunveruleikinn sem blasir við okkur og við verðum að nálgast málin út frá því. Og fremst í röðinni held ég að sé að greina hvað við ráðum við án þess að allt fari hér algerlega í keng.