153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Heilt yfir þá held ég að það sem hafi mest áhrif til þess að gera umsóknir á Íslandi áhugaverðari kost en annars væri — við vitum öll að það er ekki veðrið sem orsakar þennan mikla fjölda — og ég veit að hér í salnum eru þingmenn sem deila ekki þessari skoðun minni, en af því að þingmaðurinn spurði um það atriði sem hefði mest áhrif þá held ég að það sé svigrúm til að hægja á málsmeðferð, ég ætla ekki að nota orðið tefja, en hægja á og lengja þá málsmeðferð sem hægt er að fara í gegnum gagnvart hverjum og einum umsækjanda, því að á endanum snýst þetta allt um þau skilaboð sem stjórnvöld senda. Við sjáum skilaboðin sem Danir, t.d. sósíaldemókratarnir í Danmörku, systurflokkur Samfylkingarinnar, senda, þau hafa auðvitað áhrif á þau svæði þar sem straumurinn er stríður. En til að svara spurningunni: Það tiltekna atriði sem ég held að yrði mest gagn af væri að breyta þessum atriðum sem snúa að mögulegri hægingu á málsmeðferð.