153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:14]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir andsvarið og spurninguna. Nú er það svo að mál eru afgreidd út úr ríkisstjórn, þau koma inn til þingflokka þar sem hver flokkur um sig tekur umræðu og þar kemur ýmislegt fram. Þetta mál er ekki hér í fyrsta skipti á dagskrá. Á því hafa orðið jákvæðar breytingar sem voru forsenda þess að þingflokkur Vinstri grænna afgreiddi það út, í þeim tilgangi að koma því til þinglegrar meðferðar og inn í allsherjar- og menntamálanefnd til þess að vinna það áfram. Mér finnst eins og verið sé að kalla eftir því að ég segi annaðhvort að frumvarpið sé ónýtt eða fullkomið. Er eitthvert frumvarp sem hér er lagt fram þess eðlis? (Gripið fram í.) Ég held ekki. Ég held að við gætum sleppt þinglegu meðferðinni ef frumvörpin kæmu tilbúin til afgreiðslu í fullkominni sátt beint út úr ríkisstjórn.