153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:18]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Mér finnst ákveðin stórtíðindi liggja þarna fyrir. Hv. þm. Jódís Skúladóttir er sjórnarþingmaður, ég tek það fram, og hún svaraði ekki spurningunni um það hvort hún styðji stjórnarfrumvarp sem búið er að samþykkja í ríkisstjórn sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð á aðild að. Ég spyr því aftur: Mun stjórnarþingmaðurinn Jódís Skúladóttir styðja þetta frumvarp, sem hér liggur fyrir og er til umræðu, óbreytt eða ekki? Ég minni á að Miðflokksmenn, bæði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hv. þm. Bergþór Ólason, hafa lýst yfir stuðningi við þetta frumvarp. Þeir telja það ekki fullkomið og þeir fjalla líka um að það myndi fara fá þinglega meðferð. Spurning mín er sáraeinföld: Styður hv. stjórnarþingmaður stjórnarfrumvarpið eða ekki?