153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:19]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er spennandi. Mun hv. þm. Jódís Skúladóttir sprengja ríkisstjórnina í beinni útsendingu? Ég geri ekki ráð fyrir því að það sé mikið áhorf á þessum tíma. Ég ætla bara að halda áfram að svara því að ég hef verið óhrædd og þannig virkar nú minn þingflokkur að við getum haft ólíkar skoðanir, við getum tekist á. Við komumst að þeirri niðurstöðu að við vildum afgreiða þetta frumvarp út úr þingflokki og koma því til þinglegrar meðferðar. Það erum við að gera. Frumvarpið getur tekið breytingum í þeirri vinnslu þannig að það er erfitt að svara endanlega: Ætla ég að styðja það eða ætla ég ekki að styðja það, þannig að ég ætla nú einfaldlega að segja: Ég studdi það að málið var afgreitt út úr þingflokki VG og ég stend og fell með því.