153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:22]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var margt sem kom fram í máli hv. þingmanns. Ég ætla að ítreka það sem hefur komið hér margoft fram í mínu máli, að það eru engar stórfréttir þó að það sé ekki 100% einhugur í stórum málum innan stjórnarflokkanna. Við tökumst á um náttúruvernd, við tökumst á um orkumál, við tökumst á um allt mögulegt og reynum að finna sameiginlega, ásættanlega lausn fyrir alla. Spurningin, ef ég stytti hana nú bara alveg niður: Tel ég að þetta frumvarp auki skilvirkni (EÁ: Nái markmiði sínu.) — nái markmiði sínu um skilvirkni? Ég held að þetta frumvarp sé til þess fallið að við vinnum okkur í rétta átt enda er ekki verið að leggja það fram í fyrsta sinn. Það hefur tekið góðum breytingum og það á væntanlega eftir að gera það áfram. Ég ítreka það líka að skilvirkni getur náðst fram en það má aldrei verða á kostnað mannúðar.