153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:41]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína sem var að mörgu leyti mjög fróðleg. Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi umræðunnar sem hefur verið hér í dag og líka í ljósi heimsóknar okkar í Bæjarhraun 18 til Útlendingastofnunar og móttökustöðina í Domus Medica á Egilsgötu í Reykjavík: Telur hann að þetta frumvarp sem hér liggur fyrir, og ég gef mér að hann styðji það væntanlega heils hugar, muni fækka umsóknum hælisleitenda á Íslandi? Í ár eru umsóknirnar orðnar 3.342 og bara ef við tökum Úkraínufólkið frá erum við tala um 1.400 umsóknir. Það er algjört met. Í fyrra voru þær 874 og árið þar á undan voru þær 654. Núna erum við að 1.400. Telur hann að þetta frumvarp muni að einhverju leyti leiða til þess að það komi færri umsóknir hælisleitenda í ár?

Það væri gott að fá að heyra aðeins nánar um það þar sem ég á smá eftir af tíma mínum: Hvað er það í frumvarpinu sem eykur skilvirkni? Er það þessi sjálfkrafa kæruheimild? Er það réttindamissirinn eftir 30 dagana? Eða er það að áfram verði mál sem fara fram yfir 12 mánuði tekin til efnismeðferðar? Ég get ekki séð að reglan um 12 mánuðina, að hún leiði til efnismeðferðar, auki skilvirkni, síður en svo. Það er íslensk sérregla, ég tek það fram. Það er sérregla. Ég get því miður ekki séð að þetta frumvarp, sem er að mörgu leyti mjög fróðlegt, auki skilvirkni og gæði. Ég get ekki alveg séð þessa samræmingu við norræna löggjöf þar sem við erum enn þá, a.m.k. að hluta til, með íslenskar sérreglur. Við erum ekki í samræmi þar. (Forseti hringir.) Telur hann að þetta muni breyta einhverju? Skiptir þetta frumvarp einhverju máli varðandi ástandið, (Forseti hringir.) varðandi móttöku hælisleitenda?