153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Eins og við þekkjum, bæði í Danmörku og öðrum löndum, þá býr fólk í sérstökum búsetuúrræðum þegar það hefur fengið þessa synjun og það er mjög þekkt að réttindi þess minnka hlutfallslega með þeim tíma sem líður frá því að það hefur fengið synjun. En við getum að sjálfsögðu tekið umræðuna um það með hvaða hætti við ætlum að halda fólki hér uppi ef ekki er hægt að senda það úr landi. En ég bara ítreka þessa fyrirvara sem eru hérna. Ég veit að hv. þingmaður hefur lesið málið svo vel að hún ætti að þekkja þá, m.a. þetta atriði með ferðaskilríki sem tekið er á í þessari undanþágu. En ég spyr þá bara: Er hv. þingmaður og eru Píratar eitthvað til umræðu um þetta frumvarp og breytingar á útlendingalögum? Það er kannski bara ágætt að við höfum það á hreinu. Ég viðurkenni það sem formaður hv. allsherjar- og menntamálanefndar að ég hef væntingar til þess að þetta þing taki afstöðu og afgreiði loksins þetta frumvarp sem hér liggur fyrir og hefur tekið töluverðum breytingum í allri þeirri umfjöllun sem hefur átt sér stað hér á þinginu. En það er kannski engin ástæða til að taka umræðuna eitthvað lengra ef Píratar eru búnir að ákveða að allt sem hér er skipti engu máli og hafi ekkert með þetta að gera.