153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Já, það kann að vera að einhverjum þyki umræðan aum, að óskað sé eftir að ráðherra málaflokks, sem er hér til umræðu í stjórnarfrumvarpi, taki þátt í umræðu. En ég hefði haldið að ráðherrann væri meðvitaður um það, enda hefur það komið vel fram í öllum fjölmiðlum og á vef Alþingis að umrætt frumvarp væri á dagskrá þingfundar í dag og hefði mátt ætla að umræddur hæstv. ráðherra hefði áhuga á að taka þátt í umræðu um sitt eigið málefnasvið. En það virðist hafa komið einhverjum á óvart að umrætt frumvarp væri m.a. á hans málefnasviði. En ráðherra hefði a.m.k. átt að vera meðvitaður um það og vera hér til staðar, við ættum ekki að þurfa að láta kalla hann út eins og einhvern algjörlega ótengdan aðila.