153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að rifja aðeins upp síðasta vor þegar hæstv. dómsmálaráðherra mætti með þetta frumvarp til þingsins með þessari nýju viðbót um dvalarleyfi aftast í frumvarpinu eins og hugmyndin væri að nota ástand fólks á flótta undan stríði í Úkraínu sem svona dúsu upp í fólk sem væri ósátt við allt annað í frumvarpinu. Þetta gagnrýndum við harðlega. Við gagnrýndum líka að hæstv. félagsmálaráðherra á þeim tíma, sá sami og enn er félagsmálaráðherra, lýsti ánægju með að frumvarpið væri að koma fram og báðum um að hann mætti hingað í sal og gerði grein fyrir afstöðu sinni til frumvarpsins í heild sinni og þeirra ákvæða sérstaklega sem sneru að hans ráðuneyti. Þetta var 16. maí. Það má því í raun segja að í fimm mánuði hafi legið fyrir að við vildum fá hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra í salinn í dag. Hvers vegna er hann ekki hér?