153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:03]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er bara aðeins að hugsa þetta með að afnema regluna, hvort það sé leiðin og eitthvað sem við ættum að hugsa um. Við tökum það til umræðu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég held að þetta ákvæði sem hv. þingmaður vísar í sé einmitt leið til að koma í veg fyrir að fólk sé að nýta sér tímafrestina í lögunum. Hv. þingmaður sagði hér í andsvari eða ræðu áðan að það þekktist ekki. Það er bara þannig. Öllum ber saman um það. Auðvitað er það þannig að langflestir sem koma hingað eru í mikilli neyð og eiga þar af leiðandi rétt á vernd samkvæmt kerfinu okkar, samkvæmt okkar alþjóðlegu skuldbindingum. En það er líka þannig að einstaka aðilar koma og ætla sér að vinna sér inn þann rétt að fara í efnismeðferð, jafnvel þótt aðstaða þeirra sé með þeim hætti að svo ætti ekki að vera. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að ramminn sé skýr og að hann sé ekki með einhverjum hætti misnotaður af fólki.