153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:04]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hin spurningin sem mig langaði til að beina til hv. þingmanns varðar hugmyndir hennar, sem henni hefur reyndar orðið tíðrætt um, um það að við þyrftum að opna á möguleika fólks frá ríkjum utan Evrópu til þess að koma hingað og sækja um dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku. Nú hefur hv. þingmaður líka ítrekað velt því fyrir sér hvað við getum gert til að koma í veg fyrir að fólk sé að leita inn í þetta kerfi, fólk sem á ekki heima þar.

Þá ætla ég að koma með tillögu sem ég ætla að bera undir hv. þingmann. Ég byrja á að spyrja: Hvers vegna hefur ekkert slíkt frumvarp litið dagsins ljós enn þá? Hvers vegna hafa ekki verið lagðar til einhverjar breytingar á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem víkka út rétt fólks frá svokölluðum þriðju ríkjum til þess að koma hingað og sækja um dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku?

Hin spurningin er: Er það ekki bara lausnin? Væri það ekki þannig að ef fólk hefði þann kost myndi það ekki leita í verndarkerfið? Og erum við þá ekki búin að leysa vandamálið?