153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um að ég er einmitt að reyna að vinna að slíku máli og tel það mjög mikilvægt. En ég viðurkenni líka að utan um það þarf að vera einhver rammi. Ég hef aðeins verið að skoða kanadíska kerfið. Ég hef líka heyrt af ástralska kerfinu. Það er einhvers konar punktakerfi, einhvers konar kvótakerfi. Það fer eftir því hversu mikið af vinnandi höndum í hvers konar atvinnugreinar vantar til landsins. Þeir aðilar sem ég hef rætt við sem sátu í margumræddri þverpólitískri nefnd, sem vann einmitt að lögunum sem við byggjum okkar lagaumhverfi á, hafa sagt mér að lítill áhugi hafi verið fyrir slíkum breytingum á sínum tíma og það hafi fyrst og fremst verið verkalýðshreyfingin sem hefði verið mjög hrædd við það. En mér heyrist, ef ég hef heyrt rétt í gegnum það sem þar kemur, að mögulega sé verið að opna á það. Þannig að ég held jú að það sé mjög tímabært að við skoðum hvernig við getum opnað enn frekar á atvinnu- og dvalarleyfi. En ég held að það verkefni að hafa skýran ramma í kringum verndarkerfið hlaupi samt ekki frá okkur þó að mikilvægt sé að auka möguleika fólks á að koma hingað til lands og dvelja hér og starfa hér.