153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

skuldbindingar vegna ÍL-sjóðs.

[15:15]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ótrúlegt að fylgjast með því að einn daginn sé hægt að tala um að verið sé að spara 150 milljarða og hinn að ekkert sé verið að gera. Það er augljóslega verið að taka framtíðargreiðsluflæðið frá þessum sjóðum, það átta sig allir á því sem skilja fjármálaafurðir sem eru óuppgreiðanlegar með þessari ríkisábyrgð. Þetta er útúrsnúningur á orðræðu sem sjálfur hæstv. fjármálaráðherra beitti fyrir sig í síðustu viku þannig að fullt uppgjör er greinilega eitthvað allt annað skilgreiningaratriði í þessu máli. Hins vegar svaraði hæstv. fjármálaráðherra ekki fyrirspurn minni varðandi þennan snúning sem var tekinn með ÍL-sjóð fyrir ekki svo löngu síðan, þegar 200 milljarðar voru teknir út úr honum á lágri kröfu, í ljósi þess að ekki stóð til að uppfylla framtíðargreiðsluflæði sjóðsins. Ég vil ítreka þessa beiðni vegna þess að það liggur alveg fyrir að ef það stóð ekki til að halda eftir þessum fjármunum til lengri tíma, þá er verið að fara hér í sjóði sem aðrir eiga.