Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[16:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann minntist á skilmála þessara skuldabréfa. Þeir voru auðvitað þannig að bréfin áttu að bera fasta og óbreytanlega vexti frá útgáfudegi og höfuðstóllinn átti að vera verðtryggður allt til gjalddaga. Munum að þetta var ekki bara einhver einkaaðili sem var að gefa út þessi skuldabréf, þetta var ríkisstofnun. Þetta er svolítið ólíkt Icesave-málinu sem kemur mér einhvern veginn ekki á óvart að sé dregið upp. En ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að fókusinn þarf núna að vera á það hvernig við bregðumst við.

Ég vil spyrja aðeins um blaðamannafund hæstv. ráðherra og þessar yfirlýsingar sem hann hefur verið með. Var málið rætt í ríkisstjórn áður en hæstv. ráðherra boðaði til fundarins? Var málið rætt í ráðherranefnd um efnahagsmál áður en til fundarins var boðað og fór fram einhver greiningarvinna á hugsanlegum áhrifum? (Forseti hringir.) Var t.d. rætt við fjármálastöðugleikaráð Seðlabankans, kannað hvaða áhrif þetta gæti haft á lífeyrissjóði og annað áður en þessi blaðamannafundur var haldinn?