Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[16:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka þetta mál á dagskrá á Alþingi. Það er mjög mikilvægt. Ég er sammála því að þetta séu draugar fortíðar og þeir munu hafa áhrif til framtíðar. Ég tel að hér sé mjög einfalt mál á ferðinni. Í skuldabréfaútboðinu 2004 voru skuldabréfin með gjalddaga 2024, 2034 og 2044. Höfuðstóll og vextir bréfanna voru verðtryggðir og vextir voru 3,75%, þetta er alveg skýrt. Hæstv. fjármálaráðherra vill láta skilmála ábyrgðanna gilda en vill hins vegar stytta þann tíma sem ábyrgðin nær til. Það stendur skýrt í skilmálum og í álitinu að í skilmálum skuldabréfaútgáfunnar er gert ráð fyrir að ekki sé unnt að greiða skuldina upp eða með öðrum hætti en um var samið. Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. fjármálaráðherra að fara að því að stytta ábyrgðartíma skuldabréfanna einhliða? Það er búið að veita ábyrgðina (Forseti hringir.) til 20 ára, 30 ára, 40 ára en svo vill hann, vegna hagsmuna ríkissjóðs ekki standa við þessa skilmála (Forseti hringir.) hvað varðar tímann. Hvernig getur hann ætlast til þess (Forseti hringir.) að kröfuhafar, lífeyrissjóðir í landinu, sætti sig við slíkt?