Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[16:50]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú bara að fá að leiðrétta þá staðhæfingu að hér sé einhver að tala um að gera ekki neitt. Það vill nú bara þannig til að einn af þeim kostum sem voru ræddir en fjármálaráðherra henti strax út af borðinu var að leggja sjóðnum til fjármuni. Af hverju er hér látið eins og enginn annar vilji taka á málinu? Þetta er ekki það sama. Það var einfaldlega sett þannig upp, þegar þremur kostum var stillt upp, að ráðherra ætlaði að fara þá leið að knýja mögulega sjóðinn í þrot og það væri hótun fyrir samningum. Þannig var farið að samningaborðinu með lífeyrissjóðum landsins að þeim var hótað að hér yrði stofnun sett í þrot með lögum. Það er enginn að tala um að sitja með hendur í skauti. Það sem verið er að rökræða í þessum sal, og ríkisstjórnin og þeir sem koma hér og verja þennan gjörning horfa algerlega fram hjá, er hvernig byrðunum af þessu áfalli, af þessum skuldum verður dreift. Um það snýst málið. Það snýst ekki um aðgerðaleysi, um að gera ekki neitt, um að vilja ekki taka á vandanum. Þetta snýst um nokkur hundruð milljarða króna sem hafa safnast út af pólitískum mistökum sem voru gerð á sínum tíma. Við vitum að ríkissjóður er með endurdreifingarvald í formi skatta og gjalda, getur dreift þessu höggi með sanngjarnari hætti. Lífeyrissjóðirnir fara bara í beina skerðingu. Flestir þeir sjóðir sem eiga í Íbúðalánasjóði, ÍL-sjóði, eru lágáhættusjóðir, eldra fólk sem fór lágávöxtunarleið og lágáhættuleið. Um það snýst þessi umræða. Það er verið að reyna að afvegaleiða hana þegar bent er á stjórnarandstöðuna, að hún vilji ekki gera neitt. Það sem stjórnarandstaðan vill er að rætt sé um þetta á pólitískum grunni, að ekki sé talað um að þarna séu einhverjir fjármunir og fundið fé. Það er farið af stað í þessa umræðu með mjög villandi hætti. Þess vegna veldur það uppnámi. Það hlýtur hver maður að sjá það.