Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[17:25]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir sitt innlegg sem er mjög skylt þeim hugrenningum sem leituðu á mig eftir að ég fór að kafa ofan í þetta mál. Fyrir þá sem eru að fylgjast með þessu og kannski fyrir fólkið sem hefur ekki haft hugmynd um þann stóra vanda sem við stöndum andspænis þá ætla ég að freista þess að setja í stutta tveggja mínútna ræðu, sem er núna að verða ein og hálf mínúta, mína sýn og bera undir hv. þingmann hvort hún sé rökrétt. Fjármálaverkfræði, það var orð sem ég hafði ekki heyrt um það leyti sem þetta gekk allt saman yfir, en fjármála„pródúkt“ fór að verða mjög algeng á markaði á svipuðum tíma og við vitum alveg um pródúktið sem setti heimilin á hausinn. Það var þessi svokallaði vafningur þar sem er verið að vöndla saman hlutum og allt í einu varð svo mikill peningur til í bankakerfum heimsins að ef þú baðst um 10 millj. kr. lán var spurt: Viltu ekki frekar fá 20? Það varð að koma þessum peningum í vinnu. Á svipuðum tíma eru íslensku bankarnir seldir í hendur einkaaðila og það hefði sennilega enginn getað séð það fyrir á því herrans ári 2004 að það kynni allt í einu að koma hörð samkeppni frá íslensku bönkunum inn á íbúðalánamarkaðinn. En það er það sem gerist. Þessir framsæknu menn sem höfðu eignast bankana ganga fram og fara í samkeppni við Íbúðalánasjóð sem var búinn að gera þennan rosalega vonda samning við þá sem vildu kaupa bréf á þessum díl. Það að taka lán og eiga ekki kost á því að greiða það til baka — þá kemur í huga mér setning sem ég mun botna hér á eftir: Ef það hljómar of vel til að vera satt, þá er það sennilega of gott til að vera satt. Á þeim nótum er ég mjög áhugasamur um þær leiðir sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var að reifa hér um lögmæti og réttmæti slíkra lána.