Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[17:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ferlið þarna er áhugavert, það er alveg skýrt í gögnum málsins, allt aftur til 2004 og í rauninni fyrr, að fólk vissi af þessari áhættu. Það var verið að reyna að núlla út áhættu einhverra húsbréfa og það vissu allir að það væri ekki hægt að greiða þetta upp og það gæti skapast vaxtamunur sem myndi leiða til taps. Fólk var greinilega ekki nægilega vel með á nótunum til að reyna að stilla þetta af þannig að það gerðist ekki. Þá getum við spurt spurningarinnar: Hefðum við viljað annað? Ef kerfið hefði verið stillt þannig að þetta form myndi viðhalda sér þá hefðum við ekki verið að horfa upp á baráttu fyrir lægri vöxtum, sem dæmi. Lægri vextir eru það sem kollvarpaði þessu. Það að Íbúðalánasjóður var ekki með bestu kjörin á lánum gerði það að verkum að fólk fékk önnur lán og greiddi upp Íbúðalánasjóðslánin, m.a. vegna kröfu bankanna um að fá fyrsta veðrétt sem er mjög skiljanlegt. Fólk er samt að velja lán sem það telur vera betra, að sjálfsögðu, það vill ekki fá verra lán til að borga upp betra lán, vonandi ekki alla vega. En það hringir engum bjöllum hjá þeim sem eiga að vera að vakta það sem þau vita að er áhætta. Það finnst mér mjög merkilegt og þetta er að gerast í kringum árið 2005, ef ég man rétt, úr textanum þarna, þá er allt að fara af stað í neikvæðu áttina.