Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[17:35]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann minntist á lög um ríkisábyrgðir frá 1997 og hann nefndi líka fyrr í umræðunni 75% ríkisábyrgð. Ég tel að þessar kröfur, sem lífeyrissjóðir eiga a.m.k. 80%, séu varðar af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þannig að það er ekki hægt að horfa til laga um ríkisábyrgðir til að takmarka ábyrgð ríkissjóðs með nokkrum hætti. Það myndi ganga gegn stjórnarskrárákvæðinu um friðhelgi eignarréttarins.

Annað í þessu: Kröfuhafarnir bera ekki ábyrgð á gjörðum ríkissjóðs. Ef ríkissjóður fer ekki eftir lögum frá Alþingi um ríkisábyrgðir þá er það ekki á ábyrgð kröfuhafanna, það er á ábyrgð ríkissjóðs. Ef ríkissjóður getur ekki farið að lögum sem eru sett á Alþingi Íslendinga þá eru það samskipti milli Alþingis, löggjafans, og eftir atvikum dómstóla og ríkisvaldsins.

Mig langar spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála þeirri greiningu að þetta séu kröfur sem eru varðar eignarrétti stjórnarskrárinnar og að ríkissjóði beri að standa við skuldbindingar sínar eins og kveðið er á um í skuldabréfunum.