Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[18:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst dálítið merkilegt í þessari umræðu að þetta snýst um það hvernig eigi einhvern veginn að skipta þessum mögulega skaða sem ríkið er að verða fyrir. Ég er ekki alveg sammála því að þetta sé skaði, þetta eru náttúrlega bara samningar sem er búið að gera, það er verið að reyna að koma í veg fyrir ákveðnar greiðslur sem vitað var um fyrir fram. En ef ríkið fer þannig fram að það uppfyllir ekki þær væntingar sem gerðar voru með útgáfu þessara bréfa þá verða einhverjir fyrir tjóni, hvort sem það er endurkræft í gegnum dómstóla eða hvernig sem það er. Það verða alltaf einhverjir aðilar fyrir tjóni, þar á meðal, eins og hv. þingmaður taldi upp, góðgerðarsamtök, það eru lífeyrissjóðir landsmanna og, eins og hæstv. ráðherra segir, einhverjir vogunarsjóðir eða hrægammasjóðir eða hvaða orð sem var notað í umræðunni um það. Mig langaði bara til að velta því upp: Skiptir í alvörunni máli nákvæmlega hverjir eiga bréfin akkúrat eins og er? Ef við værum blind gagnvart því, við vissum ekki hverjir ættu í rauninni þessi bréf sem þessi skuldbinding er á, hvaða ákvörðun myndum við taka þá? Myndum við taka aðra ákvörðun en þegar við vitum það eða myndum við taka sömu ákvörðun? Mér finnst áhugavert að spyrja þeirrar spurningar. Við erum með dæmi, það eru góðgerðarsamtök. Ráðherra hefur talað um einhverja vogunarsjóði. Ég veit ekkert hvaða vogunarsjóðir það eru, við erum ekki með dæmi um það, við höfum bara orð ráðherra um það. Hvers konar vogunarsjóðir það eru hef ég ekki hugmynd um. Það er fullt af þeim til og þeir eru miságengir, eins og það er orðað. En skiptir það í alvörunni máli?