Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[18:38]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst gott að hv. þingmaður nefni strax þessa staðreynd að það hefur þá þegar orðið tjón af aðgerðum hæstv. fjármálaráðherra og orðum hans. Það er auðvitað sérstakt að vera með hægri mann í fjármálaráðuneytinu sem ekki bara veldur usla heldur tjóni á mörkuðum með orðunum sínum einum og mér finnst mikilvægt að þeirri staðreynd sé haldið til haga. Þegar ég segi að það sé sjálfsagt að menn setjist niður og ræði málin þá held ég að það sé alltaf vænlegt og gott að gera það í erfiðri stöðu. En ég myndi fyrst vilja fá réttarstöðuna kortlagða um hvað felst í þessari ábyrgð. Ég er alveg sammála því að það blasir a.m.k. alls ekki við hvað svona samtal ætti að snúast um, annað en að menn sameinist um að reyna að ná tökum á þessum vanda.

Það auðveldar heldur ekki samtalið þegar fjármálaráðherra beitir hótunum í sínum fyrsta leik, býður mönnum og aðilum til samninga við sig sem eiga að fara fram undir þeim formerkjum, eða hótunum, að náist ekki samkomulag sem honum hugnast þá viti menn hvað gerist í kjölfarið: lagasetning. Undir hvaða formerkjum er þá verið að semja?