Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[19:03]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið hlutskipti mitt í mörg ár að vera aftast í umræðu sem hæstv. fjármálaráðherra stendur fyrir á hverjum tíma. Ég er ekki óvanur þeirri stöðu. Í dag höfum við rætt skýrslugjöf hans til Alþingis um ÍL-sjóð. Mig langar í upphafi að leyfa mér að taka undir orð hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur en hún sagði í sinni ágætu ræðu að hér þyrftum við að ræða og nálgast málið með hagsmuni almennings í huga. Ég held að það sé nákvæmlega það sem hæstv. fjármálaráðherra er að gera með þeirri skýrslu sem hann leggur hér fram til umræðu á Alþingi. Ég ætla ekki að taka undir það með nokkrum hætti, eins og hér hefur verið reynt að leggja út, að með þessari framgöngu hafi fjármálaráðherra ætlað sér að brjóta og bramla allt í samfélaginu og trúverðugleika ríkissjóðs. Ég ætla að víkja nánar að því síðar í kvöld.

Aðeins bara um samhengi hlutanna þá langar mig að lesa upp úr meirihlutaáliti fjárlaganefndar við fjárlagagerð árið 2014. Þar stendur , með leyfi forseta:

„Framlög til Íbúðalánasjóðs hafa numið 53,5 milljörðum kr. frá árinu 2009 og að öllu óbreyttu verða framlögin 5,7 milljarðar kr. á árinu 2015. Að þeim meðtöldum hafa framlögin frá árinu 2009 numið svipaðri fjárhæð og byggingarkostnaði nýs Landspítala. Ef ekkert verður að gert munu framlögin halda áfram að aukast um árabil. Vinnuhópur á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra hefur skilað skýrslu þar sem bent var á að hagkvæmast væri að hætta starfsemi sjóðsins í núverandi mynd og mundi það að öllum líkindum koma í veg fyrir auknar útgreiðslur úr ríkissjóði vegna hans. Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun sem allra fyrst um framtíð sjóðsins með það að markmiði að koma í veg fyrir frekari útgjöld úr ríkissjóði vegna hans.“

Ég les þetta, virðulegi forseti, ekki síst bara til að rifja það upp að við höfum í langan tíma rætt þessa stöðu. Við höfum með skýrum hætti, hvort sem það hefur verið í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar eða í fjárlagafrumvörpum allnokkrum, rætt um þessa stöðu Íbúðalánasjóðs. Það kemur skýrt fram í þeim texta sem ég las upp að þetta tiltekna verkefni var á forræði félags- og húsnæðismálaráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra rakti í sinni framsögu í dag hvernig málið kemur síðan til hans með bréfi og byrjaði á því að vísa í bréf frá stjórn Íbúðalánasjóðs árið 2018. Síðan verður lagasetning hér á Alþingi þar sem málið er fært til hans. Við þurfum ekkert að deila um þessar staðreyndir. Þetta er verkefnið. Æ síðan, alveg frá árinu 2014, — þetta get ég algerlega vitnað um, virðulegur forseti, vegna þess að ég sit öll þessi ár í hv. fjárlaganefnd — höfum við rætt um þessa snjóhengju, þessar gríðarlegu skuldbindingar sem þessi fjármögnun Íbúðalánasjóðs á sínum tíma þýðir fyrir ríkissjóð.

Engum ætti að koma á óvart að til einhverra aðgerða hafi þurft að grípa. Fjármálaráðherra, með skýrslugjöf til þingsins, með þessum aðgerðum, er að ganga fram vegna þess að hann ber ábyrgð á málinu. Viðtökurnar sem hæstv. fjármálaráðherra fær síðan við þessu hafa alveg speglast hér í dag. Menn hafa efasemdir og það er allt í lagi. En hæstv. ráðherra hefur í það minnsta opnað málið og boðið upp á samtalið um það hvernig sé best að taka á því. Hann hefur talað hér um þrjár sviðsmyndir sem ég ætla ekkert að rekja nánar. Það verður þá bara að vera niðurstaða þingsins ef menn vilja ekki taka þetta skref, vilja óttast áhrifin af því svo mikið að þingið leyfi bara ráðherranum að láta þetta sigla áfram sinn veg. Hann hefur þá alla vega uppfyllt sínar skyldur.

Ég held að við getum alveg verið sammála um að svona sé nú bara staðan. Fjármálaráðherra nefndi í sinni kynningu — sem ég reyndar missti af að sjá en skoðaði síðan bara seinna — þessar tölur um útgjöld vegna skuldarinnar. Hann hefur lagt fram töluna 1,5 milljarðar á mánuði sem væru útgjöld hins opinbera. Setjum það aðeins í samhengi við óttann um orðsporstjónið sem þessar yfirlýsingar hafa valdið sem hafa verið tamar sumum alþingismönnum hér í ræðustól í dag. Þá megum við heldur ekki gleyma því að í talsverðan tíma hefur þessi fjármögnunaráhætta ríkissjóðs verið þeim ljós sem hafa verið að lána ríkissjóði peninga. Það er ekkert nýtt að það komi hér upp úr hattinum í þeim efnum og það hefur að sjálfsögðu haft áhrif á lánakjör ríkissjóðs til þessa tíma því að þessi mynd hefur verið fullkomlega birt. Við getum þess vegna tínt til aðra skuldaþætti hins opinbera sem hafa líka áhrif, eins og fjármögnun lífeyrisskuldbindinga til lengri tíma o.s.frv.

Virðulegur forseti. Mér finnst fyrst og fremst ábyrgt af hæstv. fjármálaráðherra að skila þessari skýrslu eins og honum var gert að gera með lögum frá 2019 um ÍL-sjóðinn. Það er sú staða sem við stöndum frammi fyrir hér.

Af því að ég nefndi þessar tölur úr fjárlagafrumvarpinu 2014 fyrir fjárlögin 2015 þá kemur það líka ágætlega fram á bls. 9 í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra sem er hér til umræðu. Hér segir, með leyfi forseta:

„Á árunum 2010–2016 samþykkti Alþingi á fjárlögum 60 milljarða kr. framlög til Íbúðalánasjóðs sem eiginfjár- eða rekstrarframlög. Þar af fékk sjóðurinn greidda til sín 53 milljarða kr. en að auki var gjaldfært afskrifað eigið fé í ríkisreikningi 2012 að fjárhæð 7 milljarðar kr. Ef þessi framlög eru framreiknuð með meðalávöxtunarkröfu lengsta flokks íbúðabréfa á þessu tímabili eru þau tæplega 100 milljarða kr. virði á verðlagi dagsins í dag.“

Virðulegi forseti. Þetta eru óhemju peningar og fyrir þessa fjármuni hefði að sjálfsögðu verið hægt að gera ýmislegt. Það hefði líka mögulega verið hægt að lækka útgjöld ríkissjóðs og lækka skatta en ég ætla ekki í þá umræðu hér. Megintilgangur þessarar skýrslu, meginerindi fjármálaráðherra til þingsins, er að fullnusta þá ábyrgð sem hann yfirtók þegar sjóðurinn var settur til hans og birta þinginu hver staðan er og þær hugmyndir sem hann hefur til að fara út úr stöðunni. Við getum síðan verið ósammála um hvort það sé áhættunnar virði að gera það. Ég er ekki sammála þeirri greiningu sem hefur komið hér fram að við ættum ekki að þora þessu. Ég held að það sé fullkomlega óábyrgt af okkur að láta ekki reyna á að við getum til lengri tíma sparað útgjöld ríkissjóðs með þessum hætti. Menn hafa talað mikið um tjón eigenda skuldabréfanna og fært fyrir því mikil og sterk rök að það sé verulegt. Ég veit ekki hvort ég á alveg endilega að vera sammála því að það sé verulegt eða óhjákvæmilegt. Hér snýst málið um að greiða eigendunum út þeirra eign. Þeir geta síðan ávaxtað þá eign með öðrum hætti en akkúrat í þessum skuldabréfum. Við getum ekki sagt fyrir um, eða í það minnsta ætla ég ekkert að spá fyrir um það, árangur þess að ávaxta þá fjármuni til lengri tíma þannig að lífeyrissjóðirnir, af því að þeir hafa oftast verið nefndir sem eigendur og væntanlega eiga þeir um 90% af þessum eignum, sitji endilega í enda dags uppi með tjón í þeim mæli sem haldið hefur verið fram hér í dag.

Virðulegur forseti. Mér finnst í sjálfu sér áhugaverð umræða hafa farið fram hér í dag. Rétt eins og hæstv. fjármálaráðherra boðaði þá verður, ef af verður, látið reyna á að slíta þessum skuldabréfum eða slíta fyrirkomulagi ÍLS-sjóðs. Það mun koma frumvarp fyrir Alþingi þess efnis og þá held ég að við getum aftur tekið upp þráðinn þar sem við ræðum um önnur hliðaráhrif, óæskileg áhrif af að gera þetta. Ég ætla að leggja áherslu á það í lokin að ég fagna því að loksins séum við komin á þann stað að reyna að koma okkur út úr þessari risasnjóhengju sem vofir yfir okkur og ég hef fulla trú á því að þeir sem fá útgreidd verðmæti sín, sem þeir hafa bundið í þessum ÍLS-sjóði, séu mun betur til þess hæfir að ávaxta þá peninga heldur en ÍL-sjóður í eigu ríkissjóðs á hverjum tíma.