Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[19:13]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Ég vil taka fram að ég fagna þessari umræðu líka. Ég vil líka taka fram, og ég sagði það í ræðu minni, að ég tel að þessi skýrsla hafi verið góð, það sé gott að við ræðum hana hér á Alþingi og að Alþingi Íslendinga eigi að móta ákveðna stefnu í þessu máli. Hún miðast við það að íslenska ríkið standi við skuldbindingar samkvæmt ábyrgðinni út líftíma skuldabréfsins.

Það er sjálfsagt hægt að tala við lífeyrissjóðina um að þeir gefi eitthvað eftir af kröfum sínum en gagnvart öllum sem eiga þessi skuldabréf þarf að standa skil á skuldbindingum samkvæmt þessum bréfum. Ég veit að þetta er einföld ábyrgð. Það var mjög áhugavert að heyra hv. þingmann segja að það sé búið að ræða þetta undanfarin ár í fjárlaganefnd. Ég tel að einmitt núna ætti Alþingi Íslendinga að lýsa því yfir að við ætlum að standa við skuldbindingarnar samkvæmt þessum skuldabréfum. Að reyna að slíta þessu núna með lögum finnst mér mjög hæpið, hvað þá að fara að knýja fram einhvers konar skipti, gjaldþrotaskipti, eða hvernig sem það er, eða óska eftir viðræðum um slit sjóðsins. Þá er bara verið að stytta líftíma skuldabréfanna, svo einfalt er það.

Ég tel að hagsmunum almennings sé best borgið með því að íslenska ríkið standi við skuldbindingar, eins og það ætlaði að gera 2004. Það er mín einlæga skoðun og ég held að ég hafi alveg fært rök fyrir því. Vissulega getum við fengið einhvern afslátt núna, knúið fram afslátt með lögum, en þá er trúverðugleiki íslenska ríkisins farinn og ábyrgð ríkisins, einfalda ábyrgðin, er þá dauð. Það fer enginn að treysta einfaldri ábyrgð ríkisins vegna þess að það getur alltaf verið að ríkið komi og segi: Heyrðu, þetta átti að vera ábyrgð til 50 ára en nei, við ætlum bara að hafa hana til 20 ára, og vísi til fyrra fordæmis. (Forseti hringir.) Það veldur íslenska ríkinu og almenningi tjóni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að hér sé (Forseti hringir.) bara um tilraun að ræða, að taka upp viðræður við kröfuhafa ÍL-sjóðs, eða mun íslenska ríkið knýja fram slit á sjóðnum með frumvarpi?

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmann á að virða ræðutímann.)