Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[19:27]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi bara það sama. Ég hef skilning á því að það hafi dregist í ljósi þeirra verkefna og aðstæðna sem við vorum í á hverjum tíma. Það má alveg halda því fram að miðað við umfang og hversu stórar fjárhæðir eru undir geti það á einhvern hátt verið ámælisvert. Líkt og ég sagði áðan á það sér þessar skýringar. Eins og ég sagði líka ætla ég ekki að hrópa mig hásan yfir því. En meginmálið er þetta. Hv. þingmaður vísaði til lögfræðiálitsins sem hér er lagt undir. Nú hefur maður lesið allnokkur álit lögmanna eða lögfræðiálit sem hafa verið til ráðgjafar. Að þessu sinni ber svo við að þetta lögfræðiálit er býsna skýrt. Þó að tilvitnun sé til neyðarástands og fjármálahruns þar í er ég ekki sammála því að það sé drifkraftur álitsins, heldur er einungis verið að draga fram dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum sem vísað er til. Ég segi að það lögfræðiálit sem hér liggur undir og hefur verið birt er óvenjuskýrt og góð leiðsögn í þessu máli.