Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands.

[11:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þróun þessa máls er síst til þess fallin að efla traust á stofnunum eða á útgerðinni sem slíkri en það er mín skoðun að mikilvægt sé að efla traust á svo samfélagslega mikilvægri atvinnugrein.

Hvað rannsókn Samherjamálsins varðar er mikilvægt að halda því til haga að strax í upphafi sagði forsætisráðherra, og hefur ítrekað sagt síðan í fjölmiðlum, að ekki muni skorta fjármagn til rannsóknarinnar af hálfu hins opinbera. Enn fremur hefur hún áréttað að ef komi til þess að það þurfi frekari fjárveitingar til að sinna rannsókn á Samherjamálinu verði þær veittar. Eftir beiðni héraðssaksóknara var 200 milljóna viðbótarframlag veitt úr ríkissjóði árið 2020 til þeirra stofnana sem tengjast eftirliti og vörnum gegn peningaþvætti, skattrannsóknum og skatteftirliti.

Í mínum huga er mjög mikilvægt að svo viðamikilli rannsókn á fyrirtæki sem hefur jafn veigamikla stöðu í einni af grunnstoðum íslensks athafnalífs og nýtir sér sameiginlegar auðlindir landsins sé sinnt af kostgæfni. Ég tek hins vegar undir að sá dráttur sem orðið hefur á rannsókninni er ekki góður fyrir neinn og alls ekki orðspor landsins. Í þessu samhengi finnst mér tilefni til að undirstrika að öll íslensk fyrirtæki fari fram af sóma og sýni samfélagslega ábyrgð bæði hér heima og erlendis.

Kunnugleg birtingarmynd samfélagslegs mikilvægis útgerðarinnar, sú sem flest okkar kannast við og ekki síst við sem búum á landsbyggðunum, er hversu miklu máli útgerðin skiptir og hefur skipt í nærsamfélaginu í áranna rás og hversu samtvinnuð áhrif fyrirtækjanna eru við félagslíf, íþróttir og menningu. En mikilvægi útgerðarinnar í nærsamfélaginu þýðir líka ákveðin ítök, þar sem oftar en ekki er um að ræða stærsta vinnustaðinn sem stendur undir meira eða minna velflestum störfum þess og fyrirtækin eru síður en svo hafin yfir gagnrýni.

Virðulegi forseti. Ég geri meiri kröfur til fyrirtækja sem nýta sameiginlegar auðlindir okkar, sér í lagi þar sem þau greiða afar lágt afgjald fyrir, að þau sýni ríka samfélagslega ábyrgð.

Að endingu vil ég segja að það að sama fyrirtæki hegði sér með öðrum hætti erlendis en hér heima er forkastanlegt, enda ætti mannvirðing að vera í forgrunni allra athafna og þátttöku fyrirtækja hvar sem þau eru starfandi í heiminum.