Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ákvað að helga meginþorra minnar ræðu því að benda á að þetta frumvarp er ekki að fara að leysa þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir og kannski þau verkefni sem mest er talað um í þessari umræðu, þessa óstjórn sem hefur verið talað um, sem er auðvitað ekki óstjórn því að það voru stjórnvöld sem tóku ákvörðun um að mæta 2.700 af þeim 3.300 sem eru hérna með opinn faðminn. Það eru ákvæði í þessu frumvarpi sem eru algjörlega að fara að breyta í grundvallaratriðum þeirri þjónustu og þeim möguleikum sem við erum með í lögunum. Því miður. Það er t.d. þetta með niðurfellingu þjónustunnar sem er grafalvarlegt mál. Það var áhugavert þegar við vorum á ferðalagi bæði í Noregi og Danmörku, sem er mikið vísað til, við í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég passaði alltaf að henda fram þeirri spurningu hvort niðurfelling þjónustu kæmi til greina í þessum ríkjum og þá var því svarað alfarið neitandi, af því að það virðist vera sem stjórnmálamenn þar og stjórnvöld í þessum löndum, sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, hafi aðeins meira en rörsýnina og átti sig á því að þau verkefni hverfa ekki. Eins og það var orðað: Við viljum ekki fá fólkið undir brúna. Af því að fólk hverfur ekki. Verkefnin fara þá, fólk sefur undir brúnni og (Forseti hringir.) upp við vegg og þarf þá einhvern veginn að finna út úr því að draga fram lífið á hverjum degi. Þetta er eitt af mörgum atriðum sem munu skerða réttindi fólks á flótta.