Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi það að fólk geti ekki farið heim til sín. Það er alveg staðreynd. Fólk er ýmist ekki með nein skilríki til þess að ferðast eða það er ekki með heimild til að koma til ríkjanna. Það þekkist um heim að ef fólk hefur farið ólöglega úr eigin landi, eigin ríki, — okkur finnst auðvitað algjörlega óskiljanlegt að svo geti verið af því að við höfum fullt ferðafrelsi á Íslandi en það þekkist ekki alls staðar í ríkjum heimsins — ef fólk hefur farið ólöglega úr landi þá er því meinuð landganga inn í landið líka. Ríkið einfaldlega tekur ekki á móti því fólki. Ég ætla að fjalla aðeins meira um þetta á eftir, vonandi get ég það.

En hvað verður um þetta fólk á Íslandi ef það kemst ekki út? Þá fer það á sveitarfélögin sem verða að þjónusta útlendinga í neyð með einhvers konar lágmarksframfærslu. En slík framfærsla stendur auðvitað ekki undir húsnæðiskostnaði. Við vitum bara að þetta þýðir að það mun fjölga mjög í hópi heimilislausra á Íslandi. Þeim sem þurfa að fá matargjafir mun fjölga verulega o.s.frv. Það er þannig. Þetta er auðvitað ekki risastór hópur en við þurfum alltaf í allri þessari umræðu að muna að á bak við hvert númer, á bak við hverja tölu, er einstaklingur sem er að koma úr einhverju slíku ástandi að hann eða hún getur ekki farið til baka, getur ekki búið í heimalandi. Það er fólk þarna á bak við. Þetta eru ekki bara tölur. Við megum aldrei gleyma því í þessari umræðu.