Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, stjórnvöldum er nokkur vorkunn einfaldlega vegna þess að virkjun þessa ákvæðis gaf þeim í raun færi á að segja: Við viðurkennum stöðuna almennt og það þarf ekki að skoða umsókn hvers og eins. Við vitum hvert ástandið er og þannig er hægt að stimpla í rauninni alla þá sem koma hingað frá Úkraínu.

Ég hef aðeins hugsað út í þá sem bjuggu í Úkraínu en voru ekki með úkraínskt vegabréf. Hvað erum við að gera við það fólk? Erum við að taka á móti því fólki? Ég segi að stjórnvöldum sé vorkunn einfaldlega vegna þess að þetta er ákvörðun sem þurfti í raun að taka í sömu viku og stríðið braust út, þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Það er oft þægilegt að vera vitur eftir á og það hefði að sjálfsögðu verið betra ef þá þegar hefði verið tryggt að þetta fólk væri með rýmri heimild til dvalar hérna. Nú er komið ákall frá úkraínskum stjórnvöldum sem segja: Ekki láta það hvarfla að ykkur að koma hingað á næstu 12 mánuðum. Allir innviðir eru í klessu. Ég held að núna þurfi alla vega að smíða einhvers konar ákvæði í lögin, mögulega til bráðabirgða, sem segir að þeim sem var veitt vernd á grundvelli þessa ákvæðis verði sjálfkrafa veitt vernd til næstu tveggja ára. Ég held að það sé eina lausnin sem við getum fengið í þessu til að við fáum ekki 1.700 manns inn á gólf eftir smátíma sem þurfa að endurnýja leyfin sín til dvalarheimildar. Ég held að það sé ein lausn. En svarið er auðvitað að allir fengu atvinnuleyfi sem óskuðu eftir því úr þessum hóp.