Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:47]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir framúrskarandi fína ræðu. Hann fór bæði vel yfir þetta efnislega og líka út frá þáttum sem skipta mjög miklu máli í þessari umræðu, þ.e. hvernig menn haga sér í opinberri umræðu um útlendingamál almennt, vegna þess að ef menn ætla að keyra tilteknar breytingar á lögum í gegn þá skiptir að sjálfsögðu miklu máli hvernig umræðan um það er í aðdragandanum.

Eitt af mörgu sem mér fannst áhugavert í ræðunni var þegar hv. þingmaður talaði um það sem menn tala um sem misnotkun á kerfinu. Sjálfur hef ég mikið rætt þetta og hlustað eftir því þegar því er slengt fram að verið sé að misnota kerfið, verð sé að margbrjóta flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og þar fram eftir götunum. Ég hef sjálfur kallað eftir skýrari og betri leiðsögn frá þeim sem leggja þessar breytingar til um það hvers eðlis þessi misnotkun er, hverjir það eru sem eru að misnota kerfið og, t.d. í tilfelli þeirra sem koma frá Venesúela, að fá einhverja nánari greiningu á þeim hópi, hvaðan þau eru að koma, hvort þau séu í veseni með skilríki og allt þetta. Lögreglan hefur átt erfitt með að svara þessu sundurliðað, veit ég. Ein af þeim röksemdum sem heyrst hafa í þessu, af því að það sem hv. þingmaður benti líka á, er að ef fólk sem hingað kemur er fórnarlömb glæpamanna þá er það bæði fólk á flótta og líka undir hælnum á glæpamönnum. Það er tvöföld neyð, eins og hv. þingmaður nefndi. Sumir segja, þegar þetta ber á góma, að það virki t.d. ekkert betur fyrir viðskipti smyglara, ef við erum að tala um þá sem eru að smygla fólki, að geta bent á árangur og að hægt sé að gera það í tilviki Íslands, þ.e. að menn kaupi ferð með smyglurum og það sé síðan auðvelt að koma þeim hingað til landsins af því að kerfið hér sé svo opið. (Forseti hringir.)

Mig langaði að fá það fram hjá hv. þingmanni hvað honum finnist um þessar röksemdir, (Forseti hringir.) af því að undirliggjandi erum við alltaf með fólk sem bæði er að flýja neyð og er jafnvel undir hælnum á glæpahópum ef þannig er ástatt.