Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:52]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir svarið. Þetta er auðvitað svolítið merkileg umræða og mjög þörf. Ég ætla ekkert að líkja þessu algjörlega saman með beinum hætti en ef við erum að tala um einhvern hóp fólks sem er á flótta og það er líka verið að brjóta á honum af einhverjum glæpahópum þá erum við auðvitað með þessa tvöföldu neyð. Þetta minnir mig pínulítið á hugmyndafræðina sem er t.d. í fíkniefnamálum hér á Íslandi, þ.e. við erum auðvitað með glæpamenn og við erum líka með fólk sem er ofurselt efnunum, sem glæpamenn vissulega flytja inn, en okkur finnst betra að takast á við hina raunverulegu glæpamenn með því að refsa veika fólkinu. Ég hef aldrei getað skilið þegar menn nota þau rök í umræðunni að það geti verið einhvers konar viðbragð við því að glæpahópar séu að misnota fólk að gera þessu fólki erfiðara fyrir að koma hingað til landsins. Ég næ ekki þeirri röksemdafærslu og það hefur enginn getað útskýrt fyrir mér hvernig það má vera.

Það er annað sem hv. þingmaður nefndi í ræðunni sem ég hef aðeins verið að tala um og gott væri að fá smáskoðanaskipti um. Það er þetta sem mætir fólki sem hefur verið að tala fyrir því að regluverkið sé mannúðlegt og að skilvirknin megi ekki vera á kostnað mannúðar. Þá fær fólk stundum þessa spurningu: Bíddu, hvað eigum við að taka á móti mörgum? Hver er talan? Nefndu einhverja tölu. Komdu með töluna. Eiga þetta að vera 1.000, 2.000, 3.000, 5.000, eða hvað? Það er voða erfitt finnst mér að stilla fólki upp með þessum hætti. En ef menn ætla að gera það þá er líka hægt að spyrja þá sem vilja fara í hina áttina og er sama um mannúðina af því að skilvirknin þarf að vera svona mikil: Hvað vilt þú taka á móti fáum? Eru einhver lægri mörk á því sem þú vilt?

Ég ætlaði að fá hv. þingmann til að velta aðeins vöngum yfir því hvort það sé ekki bara nákvæmlega þannig að við erum auðvitað háð ákveðnum skuldbindingum, alþjóðasáttmálum og öðru slíku, og það sé ákveðin jafnræðisregla líka innbyggð í þetta allt. (Forseti hringir.) Við getum ekki sagt við einhvern sem kemur í mars: Já, þú mátt koma. En í ágúst allt í einu (Forseti hringir.) við einhvern sem er nákvæmlega í sömu stöðu: Nei, þú mátt ekki koma. Kvótinn er búinn.